Skilmálar

SKILMÁLAR GEYMSLUGÁMA/BÚSLÓÐAGÁMA

Skilgreining: orðið „gámur“ á við alla gáma og gámahús Stólpa Gáma nema annað sé tekið fram.

1.       Uppsagnarfrestur.

Uppsagnarfrestur er samdægurs af beggja hálfu.

2.       Uppsögn þarf að vera tilkynnt sannanlega.

Uppsögn skal tilkynna  símleiðis, skriflega (t.d. með tölvupósti á netfangið stolpigamar@stolpigamar.is) eða gegnum form á heimasíðu www.stolpigamar.is .

3.       Ef gámur er ekki tæmdur á skiladegi þá ógildist uppsögn.

Leigusamningurinn heldur gildi á meðan gám er ekki skilað og/eða hann tæmdur.

Vanefndir leigutaka:

4.       Réttur leigusala til að banna aðgang að gámum.

Ef leigutaki stendur ekki skil á leigugreiðslum eða vanefnir samning þennan að einhverju öðru leyti getur leigusali bannað honum aðgengi að gámnum. Því banni getur leigusali framfylgt með því að breyta læsingum eða setja læsingu á og meina þeim um aðgang að geymslusvæði sé gámur geymdur þar.

5.       Réttur leigusala til haldlagningar, förgunar og/eða sölu á munum í geymslu.

Ef leigutaki stendur ekki skil á leigugreiðslum eða vanefnir leigusamning eða skilmála hans að öðru leyti er leigusala heimilt með einhliða aðgerðum og án atbeina sýslumanns að rýma gáminn og farga þeim munum sem eru í gámnum eða leggja hald á þá til tryggingar á leigugreiðslum.  Leigutaki ber ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rýmingu, förgun og haldlagningu.  Leggi leigusali hald á muni sem eru í gám samkvæmt þessu er honum heimilt að selja þá án frekari fyrirvara.  Andvirði sölunnar rennur upp í skuld leigutaka.  Leigusali ber enga ábyrgð á fjárhagslegum skaða leigutaka vegna rýmingar, förgunar, haldlagningar og sölu á munum samkvæmt þessu.

Leigutaki samþykki að leigusala sé heimilt að koma geymdum verðmætum í verð eða verðmætin verði endurgjaldslaust eign leigusala eigi síðar en 2 mán eftir riftun leigusamnings vegna vanefnda leigutaka.

6.       Tilkynning leigusala um rýmingu, förgun og/eða haldlagningu.

Leigusali skal tilkynna leigutaka fyrirætlan um rýmingu, förgun og/eða haldlagningu með minnst tveggja vikna fyrirvara.  Fyrirvarinn telst frá sendingu tilkynningar frá leigusala.  Tilkynningin mun verða send á íslenskt heimilisfang leigutaka, netfang hans sem ritað eru á leigusamninginn eða heimilisfang sem leigutaki hefur síðar tilkynnt leigusala um eða á lögheimili leigutaka.

7.       Réttur leigusala til að halda eftir fyrirframgreiddri leigu.

Leigusala er heimilt að halda eftir fyrirframgreiddri leigu og/eða greiðslutryggingu og nota andvirðið sem greiðslu vanefnda.

8.       Riftunarheimild leigusala.

Leigusali hefur heimild til tafarlausrar riftunar leigusamnings ef hann telur að leigutaki hafi vanefnt leigusamninginn.  Riftunarréttur leigusala er ríkari en framlengingaréttur leigutaka.

Almenn ákvæði:

9.       Leigutaki ber ábyrgð á að tryggja muni í geymslu.

Samningur þessi er gámaleigusamningur en ekki þjónustusamningur.  Af því leiðir, meðal annars, að leigusali ber ekki ábyrgð á þeim munum sem eru settir í geymslu.  Það er á ábyrgð leigutaka að tryggja munina ef hann  kýs svo. Leigusali ber ennfremur enga ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni ss.  ágóðatapi sem kann að verða vegna tjóns á hinu geymda.

10.   Greiðslur á leigu / endurgreiðsla greiðslutryggingar.

Leiga er greidd fyrirfram nema um annað sé samið.  Sé leiga greidd með greiðsluseðlum eða í bankakerfi þá greiðir leigutaki allan kostnað sem af því hlýst svo sem seðilgjald, rafrænt skráningargjald o.s.fr.v.

Ef leigutaki hefur lagt fram greiðslutryggingu, ofgreitt leigu eða ef hann á kröfu á leigutaka vegna lúkningar leigusamnings, þá mun leigusali endurgreiða leigutaka þá fjármuni innan 30 daga frá síðasta leigudegi.  Leigutaki mun endurgreiða með því að leggja inn á bankareikning leigutaka.  Leigutaki skal senda skriflega tilkynningu á netfang leigusala um bankaupplýsingar.

Upplýsingum um útgáfu reikningsins á lögaðila, fjárhæð hans og hvenær hann verður greiddur, verður miðlað áfram í Greiðsluhegðunarkerfi Creditinfo Lánstrausts hf. Stólpa Gámum er heimilt að tilkynna um vanskil lögaðila til Creditinfo, til skráningar á skrá Creditinfo yfir vanskil o.fl.

11.   Ástand gáms við afhendingu.

Leigutaki skoðar gáminn við móttöku og sættir sig við hann að öllu leiti og  að gámurinn sé  í fullkomnu lagi við upphaf leigusamnings, nema að tilkynnt strax við móttöku að leigutaki sætti sig ekki við hið leigða.  Leigutaki sættir sig við ástand gáms, lögun og stærð að öllu leyti.  Leigutaka ber að skila gámnum í sama ástandi og hann tók við honum.

12.   Ábyrgð á skemmdum á gám.

Leigutaki ber ábyrgð á öllum skemmdum sem hann veldur á gámnum svo og skemmdum sem hann kann að valda á munum annarra utan eigin leigugáms.  Leigutaki skal tilkynna leigusala án tafar um þau atriði sem þarfnast lagfæringar eða viðhalds.

13.   Umgengni, notkun og framleiga.

Leigutaka er skylt að ganga vel og snyrtilega um gáminn og sameiginlegt rými sé gámur geymdur á geymslusvæði leigusala.  Leigutaka er óheimilt að breyta gám og er óheimilt að nota sameiginlegt rými til annars en að komast til og frá gám.  Leigutaka er óheimilt að framleigja gám að hluta eða í heild og er einnig óheimilt að framselja réttindi sín eða skyldur samkvæmt samningi þessum.  Leigutaki má ekki nota gám sem lögheimili eða starfstöð.  Óheimilt er að nota gám á annan hátt en til geymslu muna og gagna.

Leigutaka er óheimilt að búa, sofa eða hafa tímabundið aðsetur í gám eða veita öðrum slíkt leyfi, nema að um gámahús sé að ræða.  Honum er jafnframt óheimilt að gefa öðrum en skráðum notendum gáms upplýsingar um geymslusvæði eða veita þeim með öðrum hætti aðgang að gám eða geymslusvæði nema í fylgd leigutaka eða skráðra notenda.

Óheimilt er að stunda hvers konar sölu- eða atvinnustarfsemi frá gám, sem hefur í för með umferð hugsanlegra kaupenda vöru eða þjónustu um svæðið, sé gámur geymdur á/við geymslusvæði.  Öll notkun á hinu leigða önnur en geymsla hluta eða muna í samræmi við skilmála þessa er óheimil.

Hitastýrða gáma þarf leigutaki að fylgjast með hitastigi að lágmarki tvisvar á sólarhring og tilkynna tafarlaust ef um bilun ræðir.

14.   Hvað má ekki geyma.

Óheimilt er að geyma eftirfarandi í gám:

  • vél- eða rafknúin ökutæki (nema með sérstöku leyfi).
  • dýr eða lifandi verur af nokkru tagi þ.m.t. plöntur.
  • hræ eða leifar dauðra dýra eða plantna.
  • matvæli sem geta rotnað eða þarfnast kælingar.
  • önnur efni sem þarfnast kælingar eða geta rotnað.
  • eldfim efni af nokkru tagi sbr. m.a. reglugerð um eldfima vökva nr.188/1990.
  • sprengiefni af nokkru tagi þ.m.t. skotelda sbr. m.a. vopnalög nr.16/1998 og reglugerð um sprengiefni nr.684/1999.
  • önnur hættuleg efni s.s. gas, eldsneyti, sýru eða ætandi efni sbr. m.a. framangreind lög og reglugerðir og leiðbeiningar Brunamálastofnunar Ríkisins nr.117.BR1.
  • efni sem gefa frá sér sterka lykt eða hættulegar gufur.
  • gaskúta, spreybrúsa, eða aðra hluti sem geta sprungið.
  • rafgeyma, rafhlöður, rafstöðvar eða aðra hluti sem geta framleitt orku.
  • vopn sem teljast ólögleg skv. ákvæðum vopnalaga nr.16/1998.
  • efni sem teljast ólögleg eða eftirlitsskyld skv. ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr.21/1974 og reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr.223/2001.
  • önnur varasöm, ólögleg eða hættuleg efni eða hluti.
  • þýfi eða aðra hluti sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti.
  • efni eða hluti sem geta valdið einhverskonar skemmdum á gám eða nærliggjandi eignum. .
  • hluti sem geta valdið hávaða eða einhverskonar truflun á þeirri starfsemi sem fram fer á geymslusvæðinu.

15.   Bindandi samningur.

Ef samningur er bindandi til ákveðins tíma þá er hann bindandi jafnt fyrir leigutaka og leigusala. Leigusali getur þó sagt upp eða rift samningi efni leigutaki ekki alla skilmála samnings.  Þegar binditími samnings er útrunninn er slíkur samningur þó enn í gildi nema að honum sé sagt upp skriflega.

16.   Tilkynningar.

Leigutaka er skylt að tilkynna leigusala skriflega og með sannanlegum hætti um allar breytingar á upplýsingum um leigutaka sem fram koma í leigusamningi.

17.   Heimilisfang, símanúmer og netfang vegna tilkynninga.

Heimilisfang leigutaka þangað sem leigusali skal senda tilkynningar varðandi leigusamninginn skal vera á Íslandi.

Leigusali getur við sendingu tilkynninga til leigutaka reitt sig á að upplýsingar sem koma fram á undirrituðum leigusamningi séu réttar.  Einnig er leigusala heimilt að senda tilkynningar á lögheimili leigutaka.  Kvittun fyrir móttöku tilkynningar á heimilisfangi skal teljast fullnægjandi sönnun fyrir móttöku hennar þótt annar en leigutaki kvitti fyrir móttökunni.  Sending tilkynningar með tölvupósti á netfang sem leigutaki hefur gefið upp á leigusamning telst fullnægjandi þótt netfangið sé ekki virkt enda hafi leigusali þrívegis reynt að senda tilkynningu með tölvupósti á netfangið.  Að öðru leyti skal það teljast fullnægjandi sönnun fyrir sendingu tilkynningar leigusala ef símskeyti eða tilkynning um að ábyrgðarsending (með tilkynningu) bíði á pósthúsi, eru borin út á fyrrgreint heimilisfang.  Einnig ef þriðji aðili, svo sem stefnuvottur eða hraðsendingarþjónusta, vottar að tilkynning hafi verið borin út á heimilisfangið.  Efni tilkynningar sem leigusali hefur sent með sannanlegum hætti skal teljast vera það sem leigusali tiltekur nema leigutaki geti sýnt fram á annað með framvísun viðkomandi tilkynningar.

18.   Aðgangur að gám.

Leigutaki hefur aðgang að gám á öllum tímum sólarhrings árið um kring enda hafi hann efnt

leiguskilmála, nema þegar gámur er geymdur á geymslusvæði og þá innan opnunartíma. Leigutaki getur gefið þriðja aðila s.s. starfsmönnum, ættingja eða maka aðgangsheimild að hinu leigða ef hann kýs svo með því að skrá hann sérstaklega sem notanda gáms sé hann geymdur á geymslusvæði. Slík skráning þarf að vera tilkynnt sannarlega, símleiðis eða skrifleg, t.d. með tölvupósti á netfang Stólpa Gáma.  Gefa skal upp fullt nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer notanda þegar hann er skráður auk þess sem koma skal fram hvort aðgangsheimild notandans sé tímabundin eður ei. Aðgangur skráðs notanda gáms er sá sami og aðgangur leigutaka.

Starfsmenn leigusala hafa heimild til þess að fara inn í geymslu leigutaka hvenær sem er í því skyni að ganga úr skugga um að ákvæði samningsins og skilmála þessa séu virt.  Leigusali þarf ekki að tilkynna leigutaka sérstaklega um slíkt eftirlit.

19.   Trúnaður.

Gagnkvæmur trúnaður skal ríkja á milli aðila.  Leigutaki skal gæta trúnaðar um allt sem hann verður áskynja um við heimsóknir í gám og/eða geymslusvæði s.s. um hverja aðra leigutaka hann sér þar og hvaða hluti eða muni þeir geyma í geymslum sínum, hvernig starfsemi á svæðinum er háttað og hvernig öryggismálum er háttað í og við gám og geymslusvæði þ.m.t. hvar eftirlitsmyndavélar eru staðsettar.  Á leigutaka hvílir sú skylda að sjá til þess að skráðir notendur á hans vegum gæti sama trúnaðar gagnvart leigusala og hann sjálfur.

Leigusali skal gæta trúnaðar um leigutaka og skráða notendur á hans vegum hvaða hluti eða muni leigutaki eða notendur geyma í gám og hvernig ferðum þeirra í gám/a er háttað.

Leigusala skal þó heimilt að veita lögregluyfirvöldum og dómstólum umbeðnar upplýsingar um leigutaka, skráða notendur, ferðir þeirra og geymsluhluti gegn formlegri beiðni lögregluyfirvalda eða úrskurði dómstóls þess efnis.  Gildir það einnig um upptökur úr eftirlitsmyndavélum.  Við þær kringumstæður ber leigusala ekki að tilkynna leigutaka um að upplýsingarnar hafi verið veittar.

20.   Eftirlitsmyndavélar og önnur öryggiskerfi.

Leigutaka er kunnugt um og sættir sig við að geymslusvæði er vaktað með eftirlitsmyndavélum.

Í því felst m.a. að allar heimsóknir og umferð um húsnæðið og lóð þess eru myndaðar og vistaðar með stafrænum hætti.

Leigutaki getur ekki átt neinar kröfur á hendur leigusala sökum þess að vatnslagnir, rafmagnskerfi, brunavarnir, meindýravarnir, eftirlitsmyndavélar, þjófavarnarkerfi, lekavarnarkerfi eða önnur öryggiskerfi bila eða virka ekki í samræmi við væntingar leigutaka nema krafan sé til komin vegna vítaverðrar vanrækslu leigusala á lögbundnum skyldum sínum gagnvart leigutaka.

21.   Greiðsla skv. greiðsluseðlum er staðfesting á framlengingu.

Leigutakar sem gera bindandi samninga njóta aflsáttar frá almennu leiguverði.  Þegar binditíma líkur þá telst leigutaki almennur leigutaki þangað til hann skilar gám og á almennum kjörum nema um annað sé samið.

22.   Breytingar.

Breytingar og viðbætur við samning þennan skulu gerðar skriflega af báðum aðilum. Gildandi skilmálar eru aðgengilegir á slóðinni www.stolpigamar.is/skilmalar.pdf

23.   Ágreiningur.

Ef ágreiningur kemur upp um túlkun eða framkvæmd leigusamnings eða skilmála þessa skulu aðilar leggja sig alla fram við að leysa þann ágreining með samkomulagi. Náist ekki samkomulag skal reka dómsmál vegna ágreiningsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Skilmálar þessir gilda frá og með 1. desember 2017

 

Stólpi Gámar notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á stolpigamar.is
  • CookieConsent

Decline all Services
Accept all Services